Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra átti tvö símtöl við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu eftir að lögreglan upplýsti fjölmiðla í dagbókarfærslu að fjármálaráðherra hafi verið meðal gesta í Ásmundarsal þar sem sóttvarnareglur hafi verið brotnar á þorláksmessu. Þessi símtöl voru ekki skráð í ráðuneytinu, enda segir dómsmálaráðherra ekki kröfu gerða um það.
En í ljósi reynslunnar til dæmis varðandi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem meðal annars þurfti að segja af sér vegna út af samskiptum við lögreglu. Ætti ekki að vera búið að setja einhverjar svona reglur í ráðuneytinu?

„Það hafa verið settar reglur. Það eru bæði formleg og óformleg samskipti. Þau eru skráð ef þau snúast um einhverja ákvarðanatöku eða eru um einhver atriði sem talin eru skipta máli. Þá eru þau skráð,“ segir Áslaug Arna.
Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar tók málið upp í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Voru þetta ekki mikilvæg samskipti? Og ef þau voru ekki mikilvæg afhverju var þá verið að hringja í fólk klukkan hálf fimm á aðfangadag,“ spurði Guðmundur Andri.
Dómsmálaráðherra sagði fjölmiðla ítrekað hafa óskað eftir svörum frá henni um hvaða ráðherra hafi verið í Ásmundarsal á þorláksmessu og fjallað um að dagbókafærsla lögreglu hafi verið óvenju ítarleg.
„Og eins og sjá má á reglum um skráningu samskipta þá fellur þetta símtal ekki undir ákvæði um skráningu mála. Og upplýsingaöflun einstakra starfsmanna og ráðherra til þess meðal annars að veita fjölmiðlum og almenningi réttar upplýsingar falla einfaldlega ekki undir það ákvæði,“ sagði Áslaug Arna.
Að loknum ríkisstjórnarfundi í dag spurðum við dómsmálaráðherra hvort Bjarni Benediktsson hafi beðið hana að grennslast fyrir um þessi mál hjá lögreglunni.
„Nei.“
Það var algerlega þitt frumkvæði?
„Já ég fékk spurningar frá fjölmiðlum sem ég þurfti að svara og ákvað síðan að svara ekki,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.