Í tilkynningu frá fjölskyldu Weatherly segir að hann hafi andast á heimili sínu nærri Nashville í Tennessee á miðvikudag. Er hann sagður hafa látist af náttúrulegum orsökum.
Weatherly gaf út á annan tug platna á tónlistarferli sínum sem spannaði um fimm áratugi. Á námsárum sínum þótti hann efnilegur leikstjórnandi í fótboltaliði Mississippi-háskóla, en sneri sér að lokum að tónlistinni og fluttist til Los Angeles.
Midnight Train to Georgia náði efsta sæti bandaríska vinsældalistans árið 1973 í flutningi Gladys Knight & the Pips og vann til Grammy-verðlauna. Fjölmargir hafa síðan tekið lagið upp á sína arma, þar með talin stórsöngkonan Aretha Franklin.
Vinsælasta lag Weatherly í eigin flutningi var lagið I'll Still Love You. Á ferli sínum samdi hann einnig fjölda annarra laga sem nutu vinsælda í flutningi Gladys Knight, þar með talin Neither One of Us Wants to Be the First to Say Goodbye og You're the Best Thing (That Ever Happened to Me).