Fótbolti

Skuldir Barcelona nálgast milljarð evra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gengi Barcelona inni á vellinum hefur batnað undanfarnar vikur en utan vallar er allt í steik.
Gengi Barcelona inni á vellinum hefur batnað undanfarnar vikur en utan vallar er allt í steik. getty/Fermin Rodriguez

Spænska stórveldið Barcelona er stórskuldugt en talið er að skuldir þess nálgist einn milljarð evra. Félagið þarf að borga næstum því helming þess innan árs.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu Barcelona og vonir forráðamanna félagsins um að fá milljarð evra í tekjur urðu að engu.

Samkvæmt katalónska dagblaðinu La Vanguardia nálgast skuldir Barcelona hins vegar milljarð evra. Félagið þarf að greiða 420 milljónir evra á næstu tólf mánuðum.

Börsungar sitja í skuldasúpu þrátt fyrir að allir leikmenn félagsins hafi tekið á sig verulega launalækkun á síðasta tímabili. Þrátt fyrir það eyðir ekkert félag í heiminum jafn háum upphæðum í laun og Barcelona.

Þá er ekki ljóst hvort Barcelona geti endurnýjað samninga við sína stærstu styrktaraðila, Rakuten og Beko.

Forsetakosningar eru framundan hjá Barcelona og sigurvegara þeirra bíður væntanlega blóðugur niðurskurður. Joan Laporta, fyrrverandi forseti Barcelona, þykir líklegastur til að standa uppi sem sigurvegari í kosningunum.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×