Anton Lindskog, leikmaður Wetzlar, var svo óheppinn að greinast með kórónuveiruna. Sökum þess var leik Svía og Svartfellinga sem átti að fara fram í Svartfjallalandi frestað um óákveðinn tíma.
Sænska liðið er nú komið í sóttkví aðeins viku áður en keppni á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi hefst. Aðrir leikmenn liðsins fara í skimun á næstu dögum og Svíar krossa fingur yfir því að ekki greinist fleiri smit í þeirra herbúðum.
Svíþjóð á að mæta Svartfjallalandi í undankeppni EM á heimavelli á laugardaginn en óvíst er hvort leikurinn geti farið fram.
Fyrsti leikur Svía á HM er gegn Tékkum fimmtudaginn 14. janúar. Auk Svíþjóðar og Tékklands eru Egyptaland og Síle í G-riðli heimsmeistaramótsins.