Byrjað var að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk í framlínu gegn Covid-19 milli jóla og nýárs. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, leggur áherslu á það sé ekki fyrr en eftir seinni bólusetningu að þremur vikum liðnum, og svo þá viku sem tekur fyrir bóluefni að virka, sem efnið virkilega veitir starfsfólkinu öfluga vörn. Það sé hins vegar mjög ánægjulegt að ferlið sé farið af stað.
„Það hafa hins vegar komið í kringum fimmtíu þúsund manns á bráðamóttökuna frá því að Covid byrjaði á Íslandi í febrúar. Við höfum sem betur fer ekki fengið upp neina sýkingu sem við getum rakið til vinnu hér á bráðamóttöku og erum afskaplega ánægð með það. Afskaplega stolt með að starfsfólkið hafi náð að fylgja sóttvörnum svona vel,“ segir Jón Magnús.
Allir þegið bólusetningu nema þeir sem hafi góða og gilda ástæðu til
Jón Magnús segir alla starfsmenn hafa þegið bólusetninguna nema þeir sem hafi góða og gilda ástæðu til, hvort sem það eigi þá við um konur sem séu barnhafandi eða með barn á brjósti, eða þá einstaklinga sem eru með ofnæmi fyrir innihaldsefnum.
Hann segir starfsfólk ekki hafa verið hrætt að taka bóluefnið þó að það sé nýtt af nálinni og að það hafi ekki fundið fyrir miklum aukaverkunum.
„Aukaverkanir eru bara mjög svipaðar og að fara í aðrar bólusetningar. Það eru aðeins eymsli á stungustað en það er allt og sumt,“ segir Jón Magnús.