Fótbolti

Enska úr­vals­deildin í­hugar að klára tíma­bilið með HM-sniði í miðju landinu fyrir bak við luktar dyr

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi og félgar gætu þurft að spila í allt sumar verði nýjasta hugmyndin notuð.
Gylfi og félgar gætu þurft að spila í allt sumar verði nýjasta hugmyndin notuð. vísir/getty

Ein þeirra hugmynda sem er sögð hafa skotið upp kollinum hjá forráðamönnum ensku úrvalsdeildinnar er að klára deildina með hálfgerðu HM-móti í miðju landinu í júní og júlí fyrir framan luktar dyr svo hægt verði að klára mótið.

Kórónuveiran hefur sett strik á enska boltann eins og nær alla hluti heimsins en deildin er nú í hléi er liðin eiga níu eða tíu leiki eftir. Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar og þyrstir í sinn fyrsta titil í ansi mörg ár.

Miguel Delaney, blaðamaður Independent, greindi frá því á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi að nú íhugi enska úrvalsdeildi að klára deildina í með hálfgerðu hraðmóti í júní og júlí. Liðin yrðu í einangrun frá fjölskyldum sínum og allir 92 leikirnir yrðu spilaðir í miðju landinu.

Þannig gætu menn minnkað útbreiðslu mögulegs smits en það eru ekki bara leikmennirnir sem þurfa að vera frá fjölskyldum sínum heldur einnig þjálfarateymi, dómarar, starfsfólk sjónvarpsstöðvanna og fleiri.

Allir leikirnir yrðu sýndir í sjónvarpinu því félögin vilja alls ekki missa af þeim tekjum sem koma af sjónvarpsútsendingum enska boltans en talið er að ensk stjórnvöld séu hrifinn af hugmyndinni að klára deildina á þennan hátt.

Eins og áður segir er talið að leikið verði í miðju landinu og mögulega í London en fari hugmyndin í gegn þá er líkur á því að leikið verði á æfingavöllum félaganna sem liggja nálægt þessu svæði en ekki aðalvöllunum.

Delaney greindi svo frá því síðar á Twitter-aðgangi sínum að þýski boltinn íhugi þessa sömu leið og Englendingar þar sem sjónvarpssamningurinn þar í landi sé lifibrauð fyrir ansi mörg lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×