Fótbolti

Segir það sanngjarnt ef Liverpool myndi fá afhentan titilinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gündogan í leik gegn Liverpool fyrr á þessari leiktíð.
Gündogan í leik gegn Liverpool fyrr á þessari leiktíð. vísir/getty

Ilkay Gündogan, miðjumaður Manchester City, segir að það væri sanngjarnt ef Liverpool yrði afhent enski meistaratitillinn ef tímabilið yrði blásið af. Þetta segir hann í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF.

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en hlé hefur verið gert á deildinni eins og kunnugt er vegna kórónuveirunnar. Liðin í deildinni eiga níu eða tíu leiki eftir.

Gündogan segir að það væri sanngjarnt ef Bítlaborgarliðið fengi titilinn ef mótið yrði blásið af en þeir rauðklæddu hafa beðið ansi lengi eftir titlinum.

„Fyrir mig væri það í lagi, já. Þú verður að vera sanngjarn í íþróttum,“ sagði Þjóðverjinn í samtali við ZDF í heimalandinu. „Það eru mismunandi skoðanir á þessu. Fyrir félög sem hafa átt gott tímabil væri það eðlilega ekki gott ef tímabilið yrði blásið af.“

„Á hinn bóginn eru lið sem hafa ekki verið að gera vel og eru mögulega í fallsætum svo að blása mótið af myndi henta þeim.“

Félög í Þýskalandi hafa tekið á sig launalækkun sem og risarnir þar í landi hafa tekið sig saman og munu styrkja minni lið landsins með rausnarlegum fjárhæðum. Þetta hefur enn ekki komið til tals almennilega í Englandi segir sá þýski.

„Auðvitað finnst mér það í lagi. Það segir sig sjálft. Ég hef verið að fylgjast vel með þessu og það hefur ekki verið rætt almennilega um þetta á Englandi. Kannski er það vegna þess að ensku félögin eru sterkari en þau þýsku á þessum tímapunkti.“

„Áhugamannaliðin eru í vandræðum og fyrir þetta voru þau einnig í vandræðum svo auðvitað er það skiljanlegt að þau hugsi um launin. Ég veit ekki hver tekur lokaákvörðunina. Fyrir mig persónulega myndi ég taka vel í það að taka á mig launalækkun en ef það eru leikmenn sem vilja það ekki, þá verður að virða þeirra skoðun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×