Innlent

Ekkert sagt benda til að í­bú­prófen sé hættu­legt fyrir kórónu­veiru­sýkta

Eiður Þór Árnason skrifar
Íbúprófen er í mikilli notkun hér á landi. 
Íbúprófen er í mikilli notkun hér á landi.  Getty/picture alliance

Nokkuð hefur verið staðhæfingar þess efnis síðustu daga að bólgueyðandi lyf á borð við íbúprófen geti valdið því að COVID-19 sjúkdómurinn ágerist.

Samkvæmt Lyfjastofnun eru engar handbærar upplýsingar sem styðja það að tengsl séu á milli notkunar lyfsins og versnandi ástands sjúklinga með COVID-19 sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur.

Þar er vísað til upplýsinga frá Lyfjastofnun Evrópu sem er sögð fylgjast með grannt með málum og fara vel yfir allar nýjar upplýsingar á þessu sviði.

Fram kemur í frétt á vef Lyfjastofnunar að „ekkert bendir til að svo komnu máli, að ástæða sé til að hætta notkun íbúprófens. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir sjúklinga sem taka íbúprófen eða önnur NSAID-lyf að staðaldri við langvinnum sjúkdómum, svo sem liðagigt og öðrum gigtarsjúkdómum.“

Þá er sérfræðinefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja sögð vinna að endurmati á lyfjunum íbúprófen og ketóprófen. Það endurmat hófst í kjölfar vísbendinga um að sýkingar af völdum hlaupabóluveirunnar og sumra baktería, ágerðust við notkun slíkra bólgueyðandi lyfja.

Lyfjastofnun segir nú þegar vera tekið fram í upplýsingum margra bólgueyðandi lyfja sem eru ekki sterar, á borð við íbúprófen, að „bólgueyðandi áhrif þeirra kunni að dylja einkenni versnandi sýkingar.“

Nú skoðar umrædd sérfræðinefnd öll tiltæk gögn til að meta hvort nýrra leiðbeininga sé þörf.

Á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í gær var Alma Möller landlæknir spurð út í þessar staðhæfingar um lyf á orð við íbúprófen. Þar sagði hún að embættið væri að fylgjast með þessari umræðu og væri með það til skoðunar. Upplýst yrði betur um málið þegar hún væri komin með frekari upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×