Kærunefnd Útlendingamála hefur fallist á beiðni íranskrar fjölskyldu um endurupptöku á máli þeirra. Er ákvörðunin tekin á grundvelli þess að meira en tólf mánuðir eru liðnir frá því að umsókn um alþjóðlega vernd var lögð fram. Útlendingastofnun þarf nú að taka umsókn fjölskyldunnar til afgreiðslu.
Þetta staðfestir Claudie Ashonie Wilson, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við Vísi. Nokkuð hefur verið fjallað um mál fjölskyldunnar en um er að ræða foreldra og sautján ára son þeirra Maní Shahidi.
Maní er trans piltur og var fyrirhugaðri brottvísun fjölskyldunnar til Portúgal í febrúar, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, frestað eftir að Maní var lagður inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna alvarlegrar andlegrar vanheilsu.
Claudie segist vænta þess að fjölskyldan fái alþjóðlega vernd hér á landi og vísar meðal annars í svör staðgengils forstjóra Útlendingastofnunar á dögunum þess efnis að stofnunin myndi aldrei senda transbarn til Írans.