Stærðarinnar aurskriða sem féll rétt fyrir klukkan 11 í morgun ofan við Gilsá í Eyjafirði er talin vera um 200 m breið. Úthlaupslengdin talin tæpir 1700 m og fallhæðin um 700 m.
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands fóru á vettvang skriðunnar í Eyjafirði í dag til að meta umfang hennar.
Ekki var þó talið óhætt að fara of nálægt skriðunni í ljósi þess að enn er töluverð hreyfing í hlíðunum og því hafa ekki verið gerðar nákvæmar mælingar á skriðunni.
Skriðan er ekki talin vera vísbending um aukna skriðhættu á svæðinu en skriður geta fallið í og við skriðusárið næstu klukkutímana og jafnvel daga.
Sérfræðingar frá Veðurstofunni munu snúa aftur á vettvang á morgun til að safna frekari gögnum.