Reynir Leósson, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports, er á því að Fylkismaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson sé besti leikmaður Pepsi Max-deildar karla.
Valdimar skoraði glæsilegt mark þegar Fylkir lagði Gróttu að velli, 0-2, í Pepsi Max-deildinni í gær. Með sigrinum komust Árbæingar upp í 2. sæti deildarinnar.
„Það er mikið af góðum leikmönnum í Fylkisliðinu sem eru að stíga upp núna. En þeir auðvitað með, ég ætlaði að segja einn af þremur bestu leikmönnum deildarinnar, en ætli hann sé ekki besti leikmaðurinn í deildinni: Valdimar Þór Ingimundarson,“ sagði Reynir í Pepsi Max tilþrifunum í gær.
„Hann er með alla þessa þætti sem framliggjandi miðjumaður/kantmaður sem þarf að hafa og toppar sig í hverjum leik. Hann skoraði stórkostlegt mark og komst í tvö önnur góð færi og er leggja upp fyrir félaga sína leik eftir leik.“
Valdimar hefur skorað átta mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar og lagt upp fimm.