Djurgården lagði Kristianstad af velli 1-0 í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Það var sannkallaður Íslendingaslagur í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Guðrún Arnardóttir og lið hennar Djurgården unnu einkar mikilvægan útisigur á Kristianstad, liði Svövu Rós Guðmundsdóttur. Þá er Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari Kristianstad og Sifa Atladóttir leikmaður liðsins en hún er ólétt.
Eina mark leiksins skoraði Olivia Schrough á 73. mínútu en Svava Rós nældi sér í gult spjald undir lok leiks. Bæði Svava Rós og Guðrún léku allan leikinn.
Kristianstad varð þar með af gullnu tækifæri til að setja meiri pressu á toppliðin en liðið er í 3. sæti með 21 stig, átta stigum á eftir Göteborg sem situr á toppi deildarinnar. Djurgården fer upp í 8. sætið en þetta var aðeins þriðji sigur liðsins á leiktíðinni.