Viðskipti innlent

Sex skip lögð upp í þriðju loðnuleitina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hér má sjá staðsetningu leitarskipanna síðdegis í dag, samkvæmt korti Hafrannsóknastofnunar.
Hér má sjá staðsetningu leitarskipanna síðdegis í dag, samkvæmt korti Hafrannsóknastofnunar.

Sex skip eru nú haldin til loðnuleitar, fleiri en nokkru sinni fyrr, en þetta er þriðji leitarleiðangurinn frá áramótum. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson fer fyrir leitinni en jafnframt taka fimm veiðiskip þátt; Hákon EA, Heimaey AK, Polar Amaroq GR, Aðalsteinn Jónsson SU og Börkur NK. 

Árni Friðriksson leitaði undan Austfjörðum eftir að veiðiskipin luku leiðangri númer tvö. Leitin núna mun einkum beinast að Norðurlandi. Hákon leitar þó á Dohrn-banka á Grænlandssundi en þaðan hafa borist fréttir af loðnu. 

Fylgjast má með loðnuleitinni á rauntíma á vef Hafrannsóknastofnunar.

Loðnudreifing eins og hún var metin þann 9. febrúar. Þéttustu torfurnar, sýndar með rauðum lit, fundust suðvestan Kolbeinseyjar.Kort/Hafrannsóknastofnun.

Að sögn leiðangursstjórans Birkis Bárðarsonar gefa loðnutorfur sem fundust undan Norðurlandi í síðasta leiðangri tilefni til hóflegrar bjartsýni, en eftir hann var stærð loðnustofnsins metin 250 þúsund tonn. Það var mun skárra en eftir fyrsta leiðangur, sem mældi stofninn aðeins 64 þúsund tonn. 

Birkir áætlar að finna þurfi 150 til 200 þúsund tonn til viðbótar svo unnt sé að mæla með veiðum. Hann vonar að niðurstöður liggi fyrir upp úr næstu helgi. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Vonast til að finna tuttugu milljarða króna auðlind

Loðnuleit hefst í næstu viku eftir að samkomulag náðist um að ríkið greiði helming leitarkostnaðar útgerðarfyrirtækja, sem leggja fram tvö til þrjú skip í leitina á móti einu skipi Hafrannsóknastofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×