Innlent

Tæpur helmingur kominn með jafnlaunavottun

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjórnarráðið í Reykjavík þar sem forsætisráðuneytið er til húsa.
Stjórnarráðið í Reykjavík þar sem forsætisráðuneytið er til húsa. Vísir/Vilhelm

Rétt innan við helmingur þeirra fyrirtækja og stofnana sem áttu að vera komin með jafnlaunavottun um þessi áramót hafa öðlast hana. Lögin um jafnlaunavottun hafa nú verið í gildi í tvö ár og eru þau nú sögð til 40% þeirra starfsmanna sem þau gilda um.

Í fyrsta áfanga framkvæmdar laganna um jafnlaunavottun sem tóku gildi 1. janúar árið 2018 áttu stærstu fyrirtæki landsins með fleiri en 250 starfsmenn og opinberir aðilar sem eru meira en að hálfu í eigu ríkisins með 25 starfsmenn eða fleiri öðlast jafnlaunavottun fyrir 31. desember.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að 134 fyrirtæki og stofnanir hafi öðlast jafnlaunavottun fyrir áramótin, um helmingur þeirra 269 fyrirtækja og stofnana sem áttu að hafa gert það. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar starfa um 60.000 starfsmenn hjá þessum 134 fyrirtækjum og stofnunum og segir ráðuneytið að jafnlaunavottun nái því til 40% þeirra starfsmanna sem lögin ná til.

Öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn eiga að vera komin með jafnlaunavottun í síðasta áfanga framkvæmdar laganna við árslok 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×