Innlent

Sex ný smit greindust innanlands

Andri Eysteinsson skrifar
Vegna mistaka í kerfi við skimun á landamærum þurfti maðurinn ekki að sæta heimkomusmitgát.
Vegna mistaka í kerfi við skimun á landamærum þurfti maðurinn ekki að sæta heimkomusmitgát. Vísir/Einar

Sex ný innanlandssmit kórónuveirunnar hafa greinst hér á landi í kvöld.

Smitin tengjast öll einstaklingi sem kom til landsins 15. júlí síðastliðinn og greinir Ríkisútvarpið frá því í kvöldfréttum sínum að vegna mistaka hafi maðurinn ekki sætt heimkomusmitgát.

Jóhann K. Jóhannsson samskiptastjóri Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra staðfestir þetta í samtali við Vísi.

Maðurinn hafi komið frá einu af Eystrasaltslöndunum 15. júlí síðastliðinn og skráð sig inn með erlendri kennitölu en ekki íslenskri kennitölu sinni en RÚV greinir frá því að maðurinn sé íslenskur ríkisborgari. Því hafi kerfið gert ráð fyrir því að um ferðamann væri að ræða og því var ekki krafist af honum að hann sætti heimkomusmitgát og færi í sýnatöku II.

Jóhann segir að maðurinn hafi seinna veikst og farið sjálfur í sýnatöku þar sem hann greindist með smit. Sex aðilar í kringum manninn fóru því í sóttkví og sýnatöku og hafa allir greinst smitaðir af veirunni.

Smitrakningateymi vinnur enn að því að athuga hvort fleiri þurfi í sóttkví vegna málsins. Á meðal þess sem er skoðað er hvort eitthvað af sexmenningunum hafi einnig nýlega verið erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×