Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö eru komnir í úrslitaleik sænska bikarsins eftir sigur á Mjallby. Þar munu þeir mæta IFK Gautaborg.
Arnór var í byrjunarliðinu og spilaði 69 mínútur. Það var markalaust eftir 90 mínútna leik og því var farið í framlengingu, en ekki náðist að knýja fram úrslit í henni og því var haldið í vítaspyrnukeppni. Malmö vann vítakeppnina 4-2 og fer því áfram í úrslit.
Úrslitaleikur Malmö og Gautaborgar fer fram þann 30. júlí næstkomandi. Það verður áhugavert að sjá hvort Arnóri takist að verða sænskur bikarmeistari, en á dögunum urðu Eggert Gunnþór Jónsson og Ísak Óli Ólafsson danskir bikarmeistarar með SönderjyskE.