Enski boltinn

Gefa United frest til 10. ágúst til að ganga frá kaupunum á Sancho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jadon Sancho var næststoðsendingahæsti og þriðji markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Jadon Sancho var næststoðsendingahæsti og þriðji markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. getty/Alexandre Simoes

Borussia Dortmund hefur gefið Manchester United frest til 10. ágúst til að ganga frá kaupunum á enska landsliðsmanninum Jadon Sancho samkvæmt heimildum Bild.

Sancho hefur verið sterklega orðaður við United og önnur félög undanfarna mánuði en afar ólíklegt er að hann leiki með Dortmund á næsta tímabili.

Forráðamenn þýska félagsins hafa þó ekki áhuga á að vera mál Sanchos dragist á langinn og hafa því gefið United frest til 10. ágúst til að ganga frá félagaskiptunum.

Sancho, sem er tvítugur, er metinn á 100 milljónir punda. Dortmund keypti hann frá Manchester City á átta milljónir punda fyrir þremur árum.

Kórónuveirufaraldurinn flækir málin aðeins en United er væntanlega ekki tilbúið borga jafn háa upphæð fyrir Sancho og í venjulegu árferðri.

Sancho var marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili. Hann skoraði sautján mörk og lagði upp sextán. Dortmund endaði í 2. sæti á eftir Bayern München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×