Eins og greint var frá í gær hefur Sara Björk Gunnarsdóttir skrifað undir tveggja ára samning við Evrópumeistara Lyon.
Sara kemur til Lyon á frjálsri sölu frá Wolfsburg þar sem hún hefur leikið undanfarin fjögur ár.
Landsliðsfyrirliðinn hefur þegar spilað sinn síðasta leik fyrir Wolfsburg. Hún fær ekki að spila úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar á laugardaginn þar sem Wolfsburg mætir Essen.
Ef Wolfsburg vinnur bikarúrslitaleikinn á laugardaginn kveður Sara liðið, hafandi orðið tvöfaldur meistari á öllum fjórum tímabilunum sínum hjá því. Wolfsburg komst einnig í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018 þar sem liðið tapaði fyrir verðandi samherjum Söru í Lyon, 4-1.
Wolfsburg birti í dag myndband á samfélagsmiðlum sínum þar sem Sara er kvödd með stæl. Þar má sjá hana skora nokkur mörk, fagna titlum og tala þýsku. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.
DANKE, SARA! #VfLWolfsburg #Wölfinnen #DieLiga @sarabjork18 pic.twitter.com/qI0COB5bQi
— VfL Wolfsburg Frauen (@VfLWob_Frauen) July 2, 2020
Í samtali við Vísi sagði Sara vonast til að mega taka þátt í leikjum Lyon í Meistaradeildinni í haust. Leika á átta liða úrslit, undanúrslit og úrslit í Meistaradeildinni á Spáni dagana 21.-30. ágúst.
Lyon hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum í röð og sex sinnum alls. Þá hefur liðið unnið franska meistaratitilinn fjórtán sinnum í röð.
Sara lék með Rosengård í Svíþjóð áður en hún fór til Wolfsburg. Hún varð fjórum sinnum sænskur meistari og einu sinni bikarmeistari með Rosengård og var um tíma fyrirliði liðsins.