Viðskipti innlent

Útlit fyrir mesta samdrátt á lýðveldistímanum

Andri Eysteinsson skrifar
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á spána.
Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á spána. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir mesta samdrátt í vergri landsframleiðslu á lýðveldistímanum samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem gefin var út í dag.

Horfurnar munu vera slæmar vegna kórónuveirufaraldursins sem hafði, eins og alþjóð veit, haft mikil og lamandi áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi. Útlit er fyrir að verg landsframleiðsla dragist því saman um 8,4% í ár og er það mesti samdráttur á lýðveldistímanum.

Reiknað er með snörpum viðsnúningi á næsta árinu og að vöxtur landsframleiðslu verði 4,9% en næstu ár gera ráð fyrir hagvexti á bilinu 2,5% til 2,9%.

Þá má gera ráð fyrir samdrætti í einkaneyslu um 6,1% í ár vegna faraldursins en neysla dróst verulega saman í apríl en tók við sér í apríl. Reiknað er með áframhaldandi vexti samneyslu og má rekja það að einhverju leyti til aðgerða stjórnvalda gegn áhrifum faraldursins.

Búast má við að töluverður halli verði á ríkissjóði í ár eða um 300 milljarðar króna.

Þá er búist við samdrætti um rúm 30% í útflutningi í ár. Þó er gert ráð fyrir 19% vexti í þeim flokki að ári.

Þjóðhagsspá var síðast gefin út 1. nóvember 2019 og er næsta útgáfa áætluð í október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×