„Við viljum og ætlum okkur að vera í toppbaráttu,“ segir Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Liðið hefur bætt markaskorara í sinn hóp.
Hin 22 ára gamla Madeline Gotta hefur skrifað undir samning við Þór/KA og er verið að kára formsatriði fyrir félagaskiptin, samkvæmt heimasíðu liðsins. Gotta kemur frá San Diego í Kaliforníu en lék með Gonzaga háskólanum í Washington-ríki. Á lokaári sínu í háskólaboltanum spilaði hún alla 19 leiki liðs síns, skoraði sjö mörk og átti fjórar stoðsendingar, samkvæmt heimasíðu Þórs/KA.
Við bjóðum nýjan leikmann velkomna til okkar í Þór/KA. Madeline (Maddy) Gotta bætist í okkar frábæra leikmannahóp. // The newest addition to our great squad, Maddy Gotta, 22 y.o. American.
— Þór/KA (@thorkastelpur) June 9, 2020
#ViðerumÞórKA #WeAreThorKA #fotboltinet #heimavollurinn pic.twitter.com/KONkKM24Vp
„Ég er mjög spennt að vera á Íslandi í sumar og spila fyrir Þór/KA. Nokkrar af vinkonum mínum hafa spilað á Íslandi og hafa talað svo fallega um deildina og landið,“ er haft eftir Gotta á heimasíðunni, og þar eru einnig ummæli Andra Hjörvars þjálfara þess efnis að liðið ætli sér meira í sumar en til að mynda hefur verið spáð hér á Vísi.

„Ég hef sagt það áður að ég er skotinn í þessum leikmannahópi sem við höfum. Við munum tefla fram mörgum ungum leikmönnum sem uppaldar eru hjá félögunum og sumar þeirra að stíga sín fyrstu skref í efstu deild, innan um reyndari leikmenn eins og Örnu Sif og Láru Einars, svo dæmi sé tekið. Með því að bæta Maddy við þennan hóp verðum við vonandi enn beittari fram á við og ég bíð bara spenntur eftir að mótið hefjist. Þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum undanfarin tvö ár hefur metnaðurinn ekkert minnkað hjá okkur. Við viljum og ætlum okkur að vera í toppbaráttu,“ sagði Andri Hjörvar.