Alfreð Finnbogason ætlar sér stóra hluti með liði sínu, Augsburg, og íslenska landsliðinu á næstu vikum og mánuðum. Í apríl á þessu ári gekkst Alfreð undir aðgerð vegna þrálátra meiðsla í kálfa en hann sneri aftur á völlinn í haust.
„Ég hef æft með liðinu síðasta tvo og hálfan mánuðinn og ekki verið í neinu veseni,“ sagði Alfreð en hann segir að forráðamenn liðsins hafi ákveðið að best væri að Alfreð myndi flýta sér hægt í endurkomunni.
„Mér líður gríðarlega vel. Ég er í allt öðru og betra líkamlegu standi en síðustu tvö ár, þar sem maður var verkjaður á hverjum einasta degi og komst í gegnum leiki á verkjatöflum,“ útskýrir hann. „Nú er ég laus við það og horfi fram á veginn.“
Alfreð var ekki með í landsleikjunum gegn Moldóvu og Albaníu í síðasta mánuði þó svo að hann hefði getað spilað einhverjar mínútur.
„Mér fannst það bara ekki sanngjarnt gagnvart félaginu mínu, sjálfum mér og landsliðinu. Ég vildi ekki fara í landsliðsverkefni án þess að hafa byrjað neinn leik á tímabilinu og verið frá í 4-5 mánuði.“
Ísland á mikilvæga leiki fyrir höndum, gegn Frakklandi á föstudag og Andorra á mánudag, í undankeppni EM 2020 en efstu tvö lið riðilsins komast beint í lokakeppnina. Ísland situr nú í þriðja sæti, þremur stigum á eftir Frökkum og Tyrkjum.
„Ég horfi á landsliðsverkefni sem umbun ef þú stendur þig vel með þínu liði. Ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut að vera í landsliðinu og vildi vinna í mínum grunni og fá nokkra leiki. Mér finnst rökrétt að koma í landsliðið þegar ástand mitt er gott og ég get gefið eitthvað til baka.“

