Innlent

Guðni og Eliza halda til Græn­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Forsetahjónin munu heimsækja Þjóðminjasafn Grænlands síðar í dag.
Forsetahjónin munu heimsækja Þjóðminjasafn Grænlands síðar í dag. vísir/vilhelm
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid halda í formlega heimsókn til Nuuk á Grænlandi síðar í dag. Heimsóknin er í boði Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta segir að á upphafsdegi heimsóknarinnar skoði forsetahjónin Þjóðminjasafn Grænlands og sæki að því loknu móttöku sem Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður efnir til þeim til heiðurs. Þar verði meðal annars grænlenskir embættis- og stjórnmálamenn og fulltrúar fyrirtækja, sem átt hafa í samstarfi við íslensk fyrirtæki, auk Íslendinga sem búsettir eru í Nuuk.

„Á morgun þriðjudag mun forseti eiga fund með forsætisráð­herr­anum. Þá munu forsetahjón heimsækja Háskóla Grænlands og ræða þar við starfsmenn og nemendur og halda í þjóðþingið Inatsisartut þar sem forseti á fund með Vivian Motzfeldt þingforseta. Einnig mun forseti eiga fund með landstjóra Dana, Mikaela Engell, og sitja forsetahjónin svo hátíðarkvöldverð í boði forsætisráðherrans í Hans Egede húsinu.

Áður en heimsókninni lýkur á miðvikudaginn heimsækja forseta­hjónin Miðstöð loftslagsrannsókna í Nuuk, Kofoeds skólann og Royal Arctic Line sjóflutningafyrirtækið og eiga einnig fund með borgarstjóranum í Nuuk, Charlotte Ludvigsen. Loks má nefna að forsetafrúin mun eiga fundi með Sara Olsvig, fv. ráðherra sem nú er verkefnisstjóri UNICEF, og með Aviâja Egede Lynge, umboðsmanni barna á Grænlandi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×