Átök eru milli ríkislögreglustjóra og svo Arinbjarnar Snorrasonar, formanns Lögreglufélagsins, sem vill að Haraldur víki meðan Ríkisendurskoðun gerir heildarúttekt á embættinu. Arinbjörn hefur látið hafa eftir sér að félagsmenn hafi ítrekað kvartað undan störfum Haralds; að ríkislögreglustjóri stundi ógnar- og óttastjórnun.

Haraldur sagði, í stuttu samtali við fréttamenn, ætla að ræða stöðuna og málefni lögreglunnar við ráðherra eins og hún horfði við sér. Hann vildi ekki svara spurningum um það hvort hann væri að íhuga stöðu sína sérstaklega og sagði spurður að það yrði að koma í ljós hvort hann myndi veita viðtöl eftir fundinn.

Bætti hann við að verið væri að dreifa persónlegum sögum af honum, sem ættu sér enga stöð í raunveruleikanum. Sögurnar kæmu frá fólki sem hann hefði þurft að taka á í gegnum tíðina.
„Ég held að þetta endurspegli bara það sem lögreglumenn hafa verið að segja, þetta eru hans viðbrögð við því þegar að menn hafa leitað til hans eða komið fram með athugasemdir, þá eru þetta viðbrögðin. Það að svona hátt settur maður í embættisgeiranum skuli koma fram með svona hluti, ég bara trúi því ekki að þessi maður geti mætt til vinnu á mánudaginn og brosað framan í samstarfsfólk sitt. Ég bara trúi því ekki,“ sagði Arinbjörn Snorrason við Vísi um helgina.