Segist aldrei hafa talað um spillta lögreglu
Þá lýsti hann því yfir að hjaðningavíg, eins og hann orðaði það, yrðu ekki leyst í fjölmiðlum og mæltist til að lögreglumenn hættu að karpa sín á milli í fjölmiðlum. „Hjaðningavíg skila engu nema menn falli,“ sagði ríkislögreglustjóri og bætti því við að fundurinn með ráðherra hafi verið gagnlegur og góður.Þá var Haraldur spurður út í ummæli sem hann nefndi í viðtali við Morgunblaðið um helgina sem snéru að meintri spillingu innan lögreglunnar. Haraldur sagði alltof mikið gert úr þeim ummælum. Dæmi séu um að slíkt hafi komið upp en almennt sé ekki hægt að tala um spillta lögreglu. Það hafi hann aldrei sagt.
„Ástandið er óásættanlegt og ég lýsti þeirri skoðun minni,“ sagði Áslaug Arna um það hvað henni og ríkislögreglustjóra fór á millum.
Staða Haraldar ekki rædd sérstaklega
Hún var myrk í máli þegar hún var innt eftir hugsanlegum starfslokum Haraldar ríkislögreglustjóra. „Ekki að svo stöddu máli.“Hún segir þau Harald hafa rætt stöðu lögreglunnar og þá umræðu sem hefur verið um hana í fjölmiðlum síðustu misseri og framtíðarskipan lögreglunnar og stöðu ríkislögreglustjóra þar.
„Þetta er í skoðun,“ sagði ráðherra þegar hún var spurð nánar um stöðu Haraldar. Hún vonar að vinna sem hún hefur sett af stað í ráðuneytinu muni taka ekki meira en nokkrar vikur. Hún mun leggja á það áherslu að hún gangi hratt fyrir sig. Hún vill að þær stofnanir sem standi fyrir öryggi landsmanna virki sem best.
En, gera þær það núna?
„Já, ég myndi segja það. Lögreglan stendur sig afar vel en við þurfum að leysa úr þessum vandamálum líka.“