Hvalrekinn sem fréttist af í síðustu viku er líklega sá stærsti í rúma þrjá áratugi en á sjötta tug grindhvala liggja nú dauðir í fjörunni á Gömlu-Eyri á Löngufjörum sem er í landi Litla-Hrauns.
Þorgrímur Leifsson er annar eigandi jarðarinnar en hann kannaði aðstæður á svæðinu í gær.
„Þetta var bara náttúrulega svolítið skrítið og svolítið sorglegt að sjá hvalina þarna með litlu kálfana við hliðina,“ segir Þorgrímur.
Sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun hyggjast fara með þyrlu Landhelgisgæslunnar á morgun til kanna aðstæður á svæðinu á morgun og taka sýni. Ekki stendur til að urða dýrin að sögn Þorgríms.

Þorgrímur segir að þónokkur umferð hafi verið á svæðinu í gær.
„Þegar ég kom í gær þá voru átta flugvélar og jeppar og mótorhjól og fullt af fólki.“
Hann ítrekar að það geti verið varhugavert að leggja leið sína á svæðið.
„Ég held að það sé nú ekki óhætt fyrir alla að fara þarna. Það þarf að vera kunnugur til að komast þarna niður eftir. Það þarf að bera virðingu fyrir sjónum,“ útskýrir Þorgrímur.
„Þetta er nú ekki ætlunin að fá almenning þarna niður eftir, það er stórhættulegt að fara þarna raunverulega.“