„Þetta verður áttunda árið okkar. Við höfum farið á Unglingalandsmót UMFÍ frá því eldri strákurinn okkar, sem er 18 ára núna, var í liði með vinum úr hverfinu. Flestir þeirra æfðu fótbolta en ekki allir og mesta sportið hjá hópnum var oft að keppa í greinum sem þeir æfa ekki og hafa kannski ekki mikla hæfileika í. Eitt árið kepptu þeir til dæmis í handbolta, sem var hin mesta skemmtun fyrir okkur foreldrana að horfa á. Einnig hafa þeir keppt í körfubolta, strandblaki, frjálsum og fleiru. Fótboltinn er alltaf aðalgreinin en svo þarf að prófa einhverjar aðrar greinar líka,“ segir Steingerður.

„Oft fer einhver á undan og finnur tjaldsvæði fyrir allan hópinn. Svo er slegið upp tjaldbúðum og við grillum við saman og förum á kvöldvökurnar saman. Þetta er alltaf mikil skemmtun, strákarnir taka hlutina ekki of alvarlega, sérstaklega þegar þeir eru að keppa í þeim greinum sem þeir geta minna í,“ segir hún hlæjandi.
Þetta verður samt síðasta mótið sem eldri strákurinn tekur þátt í en gleðin heldur þó áfram því yngri strákur Steingerðar er að fara á sitt þriðja mót.
„Við eigum því allavega fimm ár eftir, sem betur fer. Ég verð bara að fá lánuð börn einhversstaðar þegar hann verður orðinn of gamall fyrir unglingalandsmótin,“ segir Steingerður sposk.
„Í ár eru yngri strákarnir með lið í fótbolta, körfubolta og strandhandbolta og keppa einnig í hinum ýmsum greinum. Hluti af skemmtuninni er undirbúningurinn, finna skemmtileg nöfn á liðin eins og Bakkabræður, Bónusgrísir og fleiri og búa til einhver bullnöfn til að setja aftan á búningstreyjurnar. Yngri hópurinn samanstendur líka af vinum úr hverfinu og fótboltanum og þegar þeir voru að keppa á fyrsta landsmótinu, 11 ára, kepptu þeir í körfubolta, sem þeir gátu ekki mikið í á þeim tíma og þeir fögnuðu ógurlega ef þeir náðu að skora stig þó að þeir hefðu tapað flestum leikjunum. Nokkrir af þeim tóku líka þátt í kökuskreytingakeppninni í fyrra og skemmtu sér konunglega. Þetta gengur allt út á húmor og skemmtun,“ segir Steingerður.

„Maður drífur sig bara af stað og skilur keppnisskapið eftir heima. Þó er gott að pakka hlýjum fötum með, bara eins og í klassískri íslenskri útilegu. Það er reyndar þannig að veðrið skiptir mann engu máli á þessum mótum. Það eru allir svo léttir og hressir og í svo góðu skapi, ekkert vesen bara gleði.“
Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ er í fullum gangi og lýkur á miðnætti 29.júlí.
