Ragnar Sigurðsson var með fyrirliðabandið hjá Rostov sem vann 2-1 sigur á Orenburg í 1. umferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Ragnar lék allan leikinn í vörn Rostov sem var 2-0 yfir í hálfleik. Eldor Shomurodov kom heimamönnum yfir á 11. mínútu eftir sendingu frá Aleksey Ionov. Sá síðarnefndi skoraði svo annað mark Rostov þremur mínútum fyrir hálfleik.
Orenburg minnkaði muninn í upphafi seinni hálfleiks en nær komust gestirnir ekki.
Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður hjá Rostov á 82. mínútu.
Rostov endaði í 9. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Fótbolti