Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um stöðu mála í viðtali í Bítinu í morgun.
Halldór segist vona að hægt verði að kynna kjarasamningana í dag. Vel hafi tekist til í þetta sinn en hann telji að kjarasamningarnir muni draga úr sundrungu á meðal þjóðarinnar og séu þannig jákvætt innlegg í samfélagsumræðuna.
Halldór segir að næstu klukkustundum verði varið í frágang.
„Ég vil nú segja að þetta séu fyrst og fremst formsatriði sem eru eftir en auðvitað er þetta þannig að þetta eru ótrúlega margir þræðir. Ég hugsa að þið mynduð ekki trúa því þegar til kastanna kemur hvað þetta er mikil smáatriðavinna að klára þetta.“
Halldór segir að samningarnir séu afar flóknir og nýstárlegir.
„Þetta er ríkið, verkalýðsfélögin og auðvitað Samtök atvinnulífsins og það eru allir að leggja mikið inn í þessa samninga. Þetta eru flóknir samningar og það er ákveðið gangverk í þeim, sem verður skýrt betur á eftir, sem byggir á samspili þessara aðila þannig að þetta er býsna snúið. “
Aðspurður um mögulega aðkomu Seðlabankans svarar Halldór því til að Seðlabankinn sé sjálfstæð stofnun sem yrði aldrei dregin inn í kjarasamninga. Seðlabankinn geti þó haft áhrif á kjör heimila í landinu.
„Vaxtastigið í landinu er gríðarlegt hagsmunamál ekki bara fyrir heimilin en líka fyrir fyrirtækin í landinu og það er nú þannig að við samningagerð er best að framkalla sem flesta þætti þar sem er gagnkvæmur ávinningur aðila og við erum vel meðvituð um þetta.“
En verður betra að búa á Íslandi eftir daginn í dag?
„Við eigum öll að trúa því að við getum verið að bæta lífsskilyrði okkar frá degi til dags. Við eigum að trúa því að það séu bjartari tímar framundan en í fortíð. Ég trúi því statt og stöðugt og það er eitt af því sem við erum að reyna að framkalla í þessum kjarasamningum,“ svarar Halldór sem bætir við að Ísland sé fyrir alla og verði áfram fyrir alla.