Innlent

Þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi

Þórhallur Valur Benónýsson skrifar
Rannsóknin var unnin á vegum Háskóla Íslands.
Rannsóknin var unnin á vegum Háskóla Íslands. Visir/Vilhelm
Ein af hverjum þremur konum hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í starfi samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna.

Rannsóknin sem unnin var á vegum Háskóla Íslands í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hófst fyrir um ári síðan og hafa nú um 30.000 konur tekið þátt.

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar í dag á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í húsi Íslenskar erfðagreiningar í Reykjavík. Fundurinn hefst klukkan 12 og verður streymt í beinni á Vísi.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands um rannsóknina er haft eftir Unni Önnu Valdimarsdóttir og Örnu Hauksdóttur, prófessorum við Læknadeild Háskóla Íslands að konur í flug- og ferðaþjónustu séu í meiri áhættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni en aðrar starfsstéttir.

Þá segist um fimmtungur kvenna vera með sterk einkenni áfallastreituröskunar en þetta er í fyrsta sinn sem hlutfallið mælist svo hátt. Aðstandendur rannsóknarinnar segjast þakklátar fyrir hversu góðar viðtökur rannsóknin hefur fengið og þá sérstaklega í ljósi þess hversu vel núverandi þátttakendahópur endurspeglar íslensku þjóðina með tilliti til aldurs, búsetu, menntunar og tekna.

Rannsóknin er enn opin og hægt verður að taka þátt til 1. maí á vefnum afallasaga.is.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×