Innlent

Maður í lífshættu eftir hnífsstungu á Akranesi

Gissur Sigurðsson skrifar
Árásin varð á Akranesi í nótt.
Árásin varð á Akranesi í nótt. Vísir/Arnar Halldórsson
Karlmaður var hætt kominn eftir að annar karlmaður stakk hann með hnífi í heimahúsi á Akranesi í nótt. Sá fyrrnefndi missti mikið blóð og í stað þess að flytja hann á sjúkrahúsið á Akranesi var hann fluttur með forgangi á slysadeild Landspítalans þar sem hann gekkst undir aðgerð og er nú kominn á gjörgæsludeild.

Atburðarásin er nokkuð óljós að sögn Jóns Ólafssonar yfirlögregluþjóns í lögreglunni á Vesturlandi.

Það var á öðrum tímanum í nótt sem tilkynning barst frá sjúkrahúsinu á Akranesi. Þangað hafði maður leitað aðstoðar og var með áverka eftir átök. Þegar læknirinn þurfti að bregða sér frá rann einhverskonar æði á manninn og braut hann ýmsa hluti á útleiðinni og hvarf.

Í framhaldinu barst tilkynning um mikið blóðugan mann í heimahúsi skammt frá spítalanum. Hafði lögreglan samband við fjarskiptastöð lögreglunnar í Reykjavík sem sendi tvo mannaða lögreglubíla áleiðis upp á Skaga. Voru sérsveitarmenn í öðrum þeirra, en þegar til kom sýndi grunaður árásarmaður engan mótþróa og var aðstoðin afturkölluð.

Strax kom í ljós að þolandinn var lífshættulega særður svo hann var fluttur beint á Landspítalann, enda var hann talinn í bráðri lífshættu að sögn Jóns Ólafssonar yfirlögregluþjóns. Árásarmaðurinn er í vörslu lögreglu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×