Illums Bolighus, er þekktasta hönnunarvöruhús Dana þar sem norrænni hönnun hefur verið gerð góð skil í meira en 75 ár. Á hátíðinni 3daysofdesign beinir Illums sjónum að íslenskri hönnun sem undanfarin ár hefur tekið sér stöðu á sviði norrænnar hönnunar.
Vörurnar gætu náð inn í verslanir
Sýningin er unnin í samstarfi Illums Bolighus, Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn í tilefni af aldarafmæli fullveldisins.„Þarna eru 16 til 20 íslenskir hönnuðir sem eru að sýna vörur eftir sig og aldrei að vita nema eitthvað nái inn í verslanir og verði til sölu til frambúðar,“ segir Ólöf Rut Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Hönnunarmiðstöð Íslands.
Sýnendur eru FÓLK, Erla Sólveig Óskarsdóttir, AGUSTAV, Ragna Ragnarsdóttir — MARÝ, Bjarni Sigurdsson Ceramics, SKATA, Dögg Design, Berlinord, ANNA THORUNN, Fuzzy, FÆRID, Bryndís Bolladóttir, Þórunn Árnadóttir og Kjartan Óskarsson. Brot af hönnuninni má sjá í albúminu neðst í fréttinni.
Sýningaropnun fer fram í Illums Bolighus við Amagertorv, fimmtudaginn, 24. maí kl. 15.00—18.00 þar sem verður skálað fyrir því besta í íslenskri samtímahönnun.

Sýnir tilraunir til að hanna sérkenni þjóðarinnar
Einnig er áhugaverð fánasýning Harðar Lárussonar opnuð á morgun. Um er að ræða samantekt yfir það hvernig íslenski fáninn hefði getað orðið og af hverju hann endaði eins og hann endaði.„Árið 1914 kallaði fánanefnd eftir tillögum frá almenningi að íslenskum þjóðfána. Ein tillaganna er núverandi þjóðfáni Íslands. Alls bárust 28 hugmyndir, flestar í rituðu máli. Grafíski hönnuðurinn Hörður Lárusson byggði nýverið á lýsingunum, rannsakaði frekar og bætti upp með eigin hugmyndaflugi og umbreytti tillögum í myndrænt form. Afraksturinn var gefinn út á bók, sem nefnist einfaldlega Fáninn. Á sýningunni mun gefa að líta úrval tillaganna, þeirra á meðal óhefðbundinn fána teiknaðan af Jóhannesi Kjarval. Einnig verður frumsýndur fáni, teiknaður og saumaður eftir lýsingum sjálfs Danakonungs, Kristjáns X, sem nýverið fundust í dagbókarfærslum konungs,“ segir í tilkynningu frá Hönnunarmiðstöð. Sýningin er opin til 5. september.
„Þjóðfáni er án efa eitt sterkasta táknræna form sjálfsvitundar þjóðar, og þessi sýning mun veita innsýn í, hvernig einstaklingar, allt frá almennum borgurum til konungs, gerðu tilraunir til að hanna sérkenni íslensku þjóðarinnar.“