Innlent

Gul viðvörun fyrir Austurland fram á morgun en 10 stiga hiti og heiðskírt í höfuðborginni

Birgir Olgeirsson skrifar
Spákort Veðurstofunnar fyrir morgundaginn.
Spákort Veðurstofunnar fyrir morgundaginn. vedur.is
Búast má við talsverðri úrkomu á Austurlandi með kvöldinu, rigningu eða slyddu á láglendi, en snjókomu til fjalla og því geta aðstæður á vegum orðið varhugaverðar, sérstaklega fyrir þá sem eru á sumardekkjum.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands sem hefur gefið út gula viðvörun fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði.

Að öðru leyti má búast við norðaustan átt, 8 – 15 metrum á sekúndu, hvassast við suðausturströndina og á annesjum norðan til. Rigning eða slydda austan- og norðaustantil á landinu og snjókomu til fjalla, en talsverð úrkoma með kvöldinu.

Úrkomulítið um landið vestanvert. Léttir til sunnan- og vestanlands á morgun. Hiti 1 til 10 stig að deginum, hlýjast suðvestanlands.

Samkvæmt spá Veðurstofunnar má búast við ansi góðu veðri á suðvesturlandi en spákortið gerir ráð fyrir tveggja stiga tölu þegar kemur að hita og heiðskírum himni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-8. Bjart með köflum á suðvestanverðu landinu og hiti 5-10 stig, en skýjað og úrkomulítið annars staðar og hiti 0 til 6 stig.

Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Fremur hæg breytileg átt. Skýjað að mestu og dálitlar skúrir á víð og dreif, en stöku él fyrir norðan. Hiti 1 til 8 stig að deginum, mildast sunnanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×