Viðskipti erlent

Eigandi British Airways skoðar kaup á Norwegian

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Norwegian Air hefur vaxið hratt undanfarin ár.
Norwegian Air hefur vaxið hratt undanfarin ár. Vísir/Getty
IAG SA, eigandi breska flugfélagsins British Airways, hefur keypt rúman fjögurra prósenta hlut í norska flugfélaginu Norwegian Air. Félagið er sagt vera að íhuga yfirtöku á Norwegian.

Félagið hefur keypt alls 4,61 prósent hlut í Norwegian, sem vaxið hefur gríðarlega undanfarin ár en glímt við fjárhagserfiðleika að undanförnu vegna hraðs vaxtar og harðrar samkeppni. Á félagið meðal annars í harðri samkeppni við íslensku flugfélögin tvö, Icelandair og WOW air.

Markaðsvirði Norwegian er metið á milljarð dollara, um hundrað milljarða króna, en möguleg kaup IAG á félaginu eru metin á þrjá milljarða dollara, um þrjú hundruð milljarða króna.

Í frétt Bloomberg segir að IAG hafi á undanförnum mánuðum fylgst náið með Norwegian og muni nýta sér nýtilkomið eignarhald sitt í flugfélaginu til þess að hefja viðræður um kaup.

Gengi hlutabréfa í Norwegian hafa hækkað mjög það sem af er degi í kjölfar tíðindanna, eða um 40 prósent þegar þetta er skrifað.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×