Enn lengist bið Burnley eftir sigri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joselu klikkaði á vítaspyrnu í kvöld.
Joselu klikkaði á vítaspyrnu í kvöld. Vísir / Getty
Burnley þarf að bíða enn lengur eftir næsta sigri sínum í ensku úrvalsdeildinni en liðið mátti þakka fyrir 1-1 jafntefli við Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Burnley vann síðast deildarleik þann 12. desember og hefur síðan spilað átta leiki í röð án sigurs. Liðið hefur fengið fjögur stig af 24 mögulegum en er í sjöunda sæti deildarinnar eftir frábæra byrjun á tímabilinu.

Newcastle hefur sömuleiðis verið í eyðimerkurgöngu en liðið hefur nú spilað átta heimaleiki í röð án sigurs. Jamaal Lascelles kom þó heimamönnum yfir í kvöld með skalla eftir hornspyrnu Kenedy, sem er lánsmaður frá Chelsea.

En markvörður Newcastle, Ken Darlow, gerði sig sekan um mistök þegar hann missti boltann í eigið mark þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Það tryggði Burnley annað stigið í kvöld.

Hann var þó ekki eini leikmaður Newcastle sem fór illa að ráði sínu í kvöld en Joselu brenndi af vítaspyrnu þegar staðan var enn markalaus. Nick Pope, markvörður Burnley, varði frá honum.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley en var tekinn af velli á 83. mínútu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira