Enski boltinn

Dortmund samþykkir 55,4 milljóna punda tilboð Arsenal í Aubameyang

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang.
Pierre-Emerick Aubameyang. Vísir/Getty
Telegraph hefur fengið það staðfest að Arsenal sé búið að ná samkomulagi við Borussia Dortmund um kaupin á Pierre-Emerick Aubameyang.

Aubameyang verður þar með dýrasti og hæstlaunaðasti leikmaður Arsenal frá upphafi.

Arsenal borgar þýska liðinu 55,4 milljónir punda fyrir Gabonmanninn og mun borga honum um 180 þúsund í vikulaun. Arsenal kaupir hann sem sagt á 7,9 milljarða og hann fær tæpar 26 milljónir í laun á viku.





Nýr samningur Arsenal og Pierre-Emerick Aubameyang mun ná til ársins 2021 en framherjinn verður þá orðinn 32 ára.

Viðræður Arsenal og Borussia Dortmund hafa staðið yfir í viku og þýska félagið hafði þegar hafnað 44 milljón punda tilboði.

Það fylgir líka frétt Telegraph að það komi til greina að Dortmund kaupi síðan Olivier Giroud af Arsenal eða fái franska framherjann á láni. Chelsea hefur einnig áhuga á Giroud.

Hjá Arsenal hittir Pierre-Emerick Aubameyang fyrir Henrikh Mkhitaryan en þeir léku báðir saman hjá Borussia Dortmund.

Aubameyang hefur skorað 13 mörk í 16 deildarleikjum með Dortmund á leiktíðinni og alls 98 mörk í 144 deildarleikjum undanfarin fjögur og hálft tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×