Fótbolti

Snýr aftur til Bayern eftir tíu ára flakk um Þýskaland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sandro Wagner í leik með Hoffenheim.
Sandro Wagner í leik með Hoffenheim. Vísir/Getty
Bayern München tilkynnti í dag að félagið hefði samið við framherjann Sandro Wagner sem kemur til liðsins frá Hoffenheim strax á nýju ári. Wagner skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning við Bæjara.

Wagner er þrítugur og er að snúa aftur til uppeldisfélagsins efitr að hann fór þaðan árið 2008. Wagner var 21 árs þegar hann fór, hafði þá komið við sögu í fjórum leikjum með Bayern en ekki náð að skora í þeim.

Eftir það fór hann á flakk um þýsku deildina - spilaði með Werder Bremen, Herthu Berlín, Darmstadt og nú síðast Hoffenheim. Þar stóð hann sig það vel að hann fékk tækifæri með þýska landsliðinu og þreytti frumraun sína með liðinu í júní á þessu ári.

Wagner var svo í liði Þýskalands sem var álfumeistari í sumar en hann spilaði þó lítið á mótinu. Líklegt er að hann verði í aukahlutverki hjá Bayern á meðan að Robert Lewandowski er heill.

Bayern greiðir þrettán milljónir evra fyrir Wagner, jafnvirði 1,6 milljarða króna. Hann hefur skorað fjögur mörk í ellefu deildarleikjum fyrir Hoffenheim þetta tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×