Enski boltinn

Gylfi: Skrýtið að skora gegn Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði frábært mark þegar Everton vann 3-1 sigur á Swansea í gær en þetta var í fyrsta sinn sem að Gylfi mætti sínu gamla liði eftir að hann var seldur til Everton í sumar.

Gylfi kom Everton í 2-1 forystu í leiknum um miðjan síðari hálfleikinn en Everton hafði lent undir í fyrri hálfleiknum. Markið skoraði hann með glæsilegu skoti utan teigs og fagnaði hann því ekki.

„Það var skrýtin tilfinning að spila gegn strákum sem ég spilaði með í þrjú ár. En þetta voru mikilvæg þrjú stig sem komu okkur í níunda sæti deildarinnar eftir nokkrar góðar vikur,“ sagði Gylfi í samtali við ESPN eftir leikinn.

Everton hefur nú unnið fjóra af fimm síðustu leikjum sínum og því fengið þrettán stig af fimmtán mögulegum. Gylfi var spurður hvað hafi breyst með ráðningu Sam Allardyce knattspyrnustjóra.

„Við erum að verjast betur sem lið undir stjórn Allardyce. Það var svekkjandi að fá mark á okkur úr föstu leikatriði í dag en við vissum að með 1-2 sigrum myndum við fá sjálfstraustið aftur og það er það sem hefur gerst.“

Gylfi segir að þrátt fyrir slæma stöðu Swansea, sem er neðst í deildinni, eigi liðið möguleika á að bjarga sæti sínu í vor.

„Swansea hefur áður verið í þessari stöðu og er með öflugan þjálfara sem og öflugt starfslið og leikmannahóp. Ég sé enga ástæðu fyrir því að liðið ætti ekki að geta snúið gengi sínu við.“


Tengdar fréttir

Allardyce: Siggy, vá

Sam Allardyce lofaði Gylfa Þór Sigurðsson í hástert eftir sigur Everton á Swansea í gær.

Gylfi fagnaði ekki glæsimarki

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsilegt mark á móti fyrrum liðsfélögum sínum í Swansea þegar þeir mættu á Goodison Park.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×