Fótbolti

Leikurinn við Perú ekki staðfestur: Erum ekki með skriflega staðfestingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Landslið Perú komst á HM í haust.
Landslið Perú komst á HM í haust. Vísir/Getty
Líkur eru á því að Ísland mætir Perú í vináttulandsleik í mars og að leikurinn fari fram í New York í Bandaríkjunum.

Fótbolti.net greindi frá þessu í gær og vísaði í ummæli Edwin Oviedo, forseta knattspyrnusambands Perú, þess efnis að hans lið myndi mæta Íslandi og Króatíu í mars.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í samtali við íþróttadeild í dag að hún gæti ekki staðfest að þessi leikur fari fram.

„Við erum að skoða alvarlega að spila þennan leik og á þessum stað. En við höfum ekki skriflega staðfestingu á því og fyrr en það er í höfn getum við ekki greint nánar frá málinu,“ sagði Klara.

Klara segir að það komi vel til greina að fara til Bandaríkjanna í mars og spila tvo vináttulandsleiki þar - einn gegn Suður-Ameríkuþjóð og annan gegn Afríkuþjóð.

„Það myndi henta okkur vel að fara til Bandaríkjanna í mars, ekki aðeins til að undirbúa liðið fyrir HM í sumar heldur allt okkar starfslið. Það er að mjög mörgu að huga.“

„En vonandi skýrist þetta allt saman mjög fljótlega. Við verum að vinna í því að klára þessi mál.“

Ísland er í riðli með Argentínu, Nígeríu og Króatíu á HM í Rússlandi og á mætir fyrst fyrstnefndu þjóðinni í Moskvu þann 16. júní. Perú er í riðli með Frakklandi, Ástralíu og Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×