Fjárlög næsta árs verða þau fimmtu í röð sem afgreidd verða með afgangi en áætlað er að afganur á næsta ári verði 44 milljarðar króna. Áður en lengra er haldið er fróðlegt að skoða hvaðan tekjur ríkissjóðs koma og í hvað þær fara.
Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar 822 milljarðar. Virðisaukaskatturinn skilar ríkissjóði mestum tekjum á næsta ári eða 29 prósentum af heildartekjunum. Tekjuskattar einstaklinga standa undir 25 prósentum af tekjunum, tryggingagjöld tólf prósentum og skattar á fyrirtæki 11 prósentum. Aðrir tekjupóstar eru allir í eins stafs tölu. Stærstur hluti útgjalda ríkissjóðs fer í félags, húsnæðis- og tryggingamál eða 26 prósent, 25 prósent fara til heilbrigðismála og 12 prósent til mennta og menningarmála. Sjö prósent fara síðan til greiðslu vaxta, eða 61 milljarður að frádregnum vaxtatekjum
Segir stjórnvöld hvergi hopa
„Við erum að nýta batann til þess að styrkja velferðarmálin, heilbrigðismálin og almannatryggingarnar. Það eru stærstu fréttirnar. Við erum hvergi að hopa,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Megináhersla fjárlaganna sé að þau sporni við þenslu er varðveiti mikla kaupmáttaraukningu á undanförnum árum Og þá komum við kannski að stærsta óvissuspilinu, kjarasamningum við stóra hópa opinberra starfsmanna sem eru framundan.
„En þá erum við svo heppin að viðmælendur okkar eru sammála okkur um það að við eigum að líta á þetta sem samvinnuverkefni. Þar sem við nálgumst verkefnið af ábyrgð og ætlum að ná þeim árangri að viðhalda kaupmætti. Það er meginmarkmiðið og ég held að við séum öll sammála um það,“ segir fjármálaráðherra.
Framlög til heilbrigðismála verða aukin um 4,6 prósent milli ára. Meðal annars hækka framlög til byggingar meðferðarkjarna fyrir nýjan Landsspítala um einn og hálfan milljarð og verða 2,8 milljarðar. Elli- og örorkulífeyrir einstaklinga sem búa einir verður hækkaður úr 280 þúsundum í 300 þúsund og hámarks fæðingarorlof úr 500 þúsundum í 520 þúsund krónur svo eitthvað sé nefnd.
Þá hækkar frítekjumark fólks á ellilífeyri úr 25 þúsund krónum á mánuði í 50 þúsund krónur. Stefnt sé að því að frítekjumarkið hækki í 100 þúsund krónur á mánuði á kjörtímabilinu.
