Fótbolti

Steinhaus dæmir í Bundesligunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bibiana Steinhaus
Bibiana Steinhaus Vísir/getty
Bibiana Steinhaus verður fyrst kvenna til að dæma karlaleik í einum af toppdeildum Evrópufótboltans um helgina.

Þýska knattspyrnusambandið staðfesti í dag að Steinhaus muni dæma leik Hertha Berlín og Werder Bremen sem fram fer á Ólympíuleikvanginum í Berlín á sunnudaginn.

„Ég er ánægð með að þessi mikla áskorun mín og liðs míns byrji loksins á sunnudaginn. Við erum án efa mjög vel undirbúin í þetta,“ sagði Steinhaus í tilkynningu knattspyrnusambandsins.

Knattspyrnustjóri Werder Bremen, Alexander Nouri, var spurður út í val á dómara leiksins á blaðamannafundi í dag. „Hún á þetta skilið eftir að hafa staðið sig mjög vel. Það er það eina sem skiptir máli.“

Julian Nagelsmann, knattspyrnustjóri Hoffenheim, sagði: „Mér er sama hvort dómarinn sé karl eða kona. Aðalatriðið er að hann standi sig vel.“

Hin 38 ára Steinhaus hefur verið dómari í 18 ár. Hún dæmdi fyrst í úrvalsdeild kvenna 1999 og fékk svo tækifæri á karlaleik 2007 þegar hún dæmdi í þýsku 1. deildinni. Steinhaus dæmdi úrslitaleik HM kvenna 2011 og úrslitaleik Ólympíuleikanna í London 2012. Ef ekki væri fyrir styrk þýska kvennalandsliðsins hefði hún eflaust dæmt fleiri úrslitaleiki á stórmótum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×