Innlent

Fagurblá nefndaskipan ráðherra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Gunnarsson vill úttekt á starfsemi Samgöngustofu og Vegagerðarinnar.
Jón Gunnarsson vill úttekt á starfsemi Samgöngustofu og Vegagerðarinnar. Vísir
Jón Gunnarsson samgönguráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur boðað úttekt á störfum Samgöngustofu annars vegar og Vegagerðarinnar hins vegar. Ráðherrann vill skoða hvort eitthvað betra megi fara í starfsemi stofnananna og hefur samkvæmt heimildum Vísis kallað til fólk úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem hann treystir best til verksins.

Til formennsku í nefndinni sem á að skoða störf Vegagerðarinnar hefur verið valinn Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri í Fjallabyggð og fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi. Gunnar, sem fagnar sjötugsafmæli sínu í haust, er með doktorsgráðu í jarðvegsverkfræði og starfaði lengi í verktakabransanum á árum áður, meðal annars sem framkvæmdastjóri Gunnars og Guðmundar í fimmtán ár.

Gunnari til halds og trausts í nefndinni verður Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður. Kristín hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil, meðal annars formennsku í Verði - fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þá situr hún í stjórn Landsambands Sjálfstæðiskvenna.

Til formennsku í nefndinni sem taka á út störf Samgöngustofu valdi Jón Sigurð Kára Kristjánsson, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins og lögmann flokksins. Honum til halds og í nefndinni er svo Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður, fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra á borð við Davíð Oddsson og eigandi Birtings þangað til nýlega. 

Eftir því sem Vísir kemst næst hafa Samgöngustofa og Vegagerðin aðeins lítillega haft veður af fyrirætlunum Jóns að taka út störf beggja stofnana. Þeim mun þó ekki hafa verið tilkynnt formlega um þau sem skipa viðkomandi nefndir. 


Tengdar fréttir

Vigdís Ósk aðstoðar Jón

Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, nýs samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Þessi vegur fær forgang hjá nýjum vegamálaráðherra

Jón Gunnarsson, nýr ráðherra vegamála, boðar að farið verði strax í gerð mislægra gatnamóta við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði sem fyrsta áfanga í að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×