Viðskipti erlent

Lítil óhrædd stúlka til höfuðs nauti Wall Street

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Óhrædda stúlkan er stytta eftir listakonuna Kristen Visbal.
Óhrædda stúlkan er stytta eftir listakonuna Kristen Visbal. Vísir/EPA
State Street Global Advisors, þriðja stærsta eignastýringafyrirtæki heims, hefur nú látið reisa styttu af ungri stúlku á móti hinu heimsfræga nauti Wall Street í New York. 

Styttunni er ætlað að minna fyrirtæki á að auka vægi kvenna í stjórnum þeirra en fyrirtækið segist ekki vilja eiga í viðskiptum við fyrirtæki þar sem engar konur sitja í stjórn. 

Styttan birtist í gær í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sem haldinn er hátíðlegur um heim allan í dag. Búist er við því að hún fái að standa í einn mánuð.

Hið fræga naut Wall Street.Vísir/Getty
Styttunni var komið fyrir í skjóli nætur og rímar það við andstæðing hennar. Listamaðurinn Arturo Di Modica kom styttunni af nautinu fyrir í skjóli nætur árið 1989 og átti það að vera tákn um styrk New York borgar eftir verðbréfahrun ársins 1987.

Styttan heitir Óhrædda stúlkan og er eftir listakonuna Kristen Visbal. Á merkingu fyrir framan hana stendur „Þekktu máttinn af konum í forystu“ og „hún skiptir máli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×