Fótbolti

Bayern jólameistarar eftir öruggan sigur í toppslagnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Spánverjarnir Xabi Alonso og Thiago Alcantara voru báðir á skotskónum í kvöld.
Spánverjarnir Xabi Alonso og Thiago Alcantara voru báðir á skotskónum í kvöld. vísir/getty
Bayern München minnti fótboltaáhugamenn á af hverju þeir eru þýskir meistarar þegar þeir unnu afar öruggan sigur á Red Bull Leipzig, 3-0, í toppslag í kvöld. Bayern fer því með þriggja stiga forskot á Leipzig inn í jólafríið sem er mánaðarlangt.

Bayern var mun sterkari aðilinn í leiknum í kvöld og sigurinn hefði getað orðið enn stærri.

Thiago Alcantara kom heimamönnum yfir á 17. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Roberts Lewandowski sem fór í stöngina. Mínútu síðar átti Diego Costa þrumuskot í stöngina á marki Leipzig.

Xabi Alonso kom Bayern í 2-0 á 25. mínútu eftir snarpa sókn og sendingu frá Thiago. Fimm mínútum síðar fékk Emil Fosberg að líta rauða spjaldið fyrir brot á Philipp Lahm og staða Leipzig orðin svört.

Hún varð enn svartari á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Lewandowski skoraði úr vítaspyrnu sem Costa náði í.

Bayern fékk færi til að bæta fleiri mörkum við í seinni hálfleik en þau nýttust ekki. Lokatölur 3-0, Bayern í vil.

Aron Jóhannsson lék síðustu 14 mínúturnar þegar Werder Bremen gerði 1-1 jafntefli við Hoffenheim á útivelli.

Werder Bremen er í 15. sæti deildarinnar en Hoffenheim í því fimmta. Hoffenheim er eina ósigraða lið deildarinnar en hefur hins vegar gert 10 jafntefli í 16 leikjum.

Hertha Berlin fer inn í vetrarfríið í 3. sæti en liðið vann 2-0 sigur á botnliði Darmstadt í kvöld.

Þá sótti Freiburg þrjú stig til Ingolstadt og Köln og Bayer Leverkusen gerðu 1-1 jafntefli.

Úrslit kvöldsins:

Bayern München 3-0 RB Leipzig

Hoffenheim 1-1 Werder Bremen

Hertha Berlin 2-0 Darmstadt

Ingolstadt 1-2 Freiburg

Köln 1-1 Leverkusen




Fleiri fréttir

Sjá meira


×