Innlent

Sigurður Ingi segir minni­hluta­stjórn koma til greina

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra sagði að ef ekki væri vilji til þess að mynda meirihlutastjórn kæmi minnihlutastjórn til greina. Ef vilji væri hins vegar til þess að mynda meirihlutastjórn væri það vel hægt.

Þetta kom fram í leiðtogaumræðum í Kastljósi í kvöld þar sem forsvarsmenn flokkanna ræddu þá stjórnarkreppu sem nú ríkir í landinu.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri Grænna sagði ekkert vera að því að hugsa um minnihlutastjórn, það myndi vera mjög styrkjandi fyrir Alþingi sem hefði verið mótað af meirihlutaræðu undanfarin ár.

Í leiðtogaumræðum á Stöð 2 í kvöld sagði Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hins vegar að ef mynduð væri minnihlutastjórn hlyti það að þýða að nýjar kosningar yrðu undirbúnar. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur áður sagt að minnihlutastjórn sé lakari kostur en meirihlutastjórn en tekur þó fram að það fari eftir því hver myndi styðja slíka stjórn. Ákveðið hættuspil væri fyrir ríkisstjórn að leggja út í slíka för.

Vilja ekki gefast upp á að mynda meirihlutastjórn

Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar tók fram í Kastljósi að kosningar væru ekki kostur í stöðunni að svo stöddu. Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar sagði í umræðum á Stöð 2 að hún væri mjög bjartsýn á að flokkunum myndi takast að mynda meirihlutastjórn.  

Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar sagðist ekki vilja gefast upp á að reyna að mynda meirihlutastjórn, mikilvægt væri að flokkarnir útilokuðu nú minna í stöðunni en áður. Gömlu munstrin væru ekki lengur í boði.  

Birgitta Jónsdóttir, forsvarsmaður Pírata sagðist sammála Óttari, flokkarnir ættu að halda áfram að tala saman eins og þeir hefðu verið að gera.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar tók í sama streng og sagðist vona að flokkarnir fimm, Samfylking, Björt framtíð, Viðreisn, Píratar og Vinstri-Græn myndu taka upp þráðinn eftir helgi og klára myndun ríkisstjórnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×