Stuðningsmenn íslenska landsliðsins á EM í Frakklandi koma til greina sem stuðningsmenn ársins hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.
Ísland sló í gegn á EM í Frakklandi í sumar, bæði strákarnir inn á vellinum með því að komast alla leið í átta liða úrslitin en líka stuðningsfólkið sem streymdi til Frakklands og málaði stúkurnar bláar.
Víkingsklappið hjálpaði íslenska stuðningsfólkinu að fanga athygli heimsins þar sem leikmenn og stuðningsfólk sameinaðasti í að búa til magnað stemningu eftir leiki íslenska liðsins.
Fótboltagoðsagnirnar Zvonimir Boban, Marta, Gabriel Batistuta og Vladimir Petkovic fengu það verkefni að velja þrjá stuðningshópa sem voru tilnefndir í ár.
Þeir klikkuðu að sjálfsögðu ekki á því að velja íslenska stuðningsfólkið en eins og eru tilnefndir stuðningsmenn Liverpool og Borussia Dortmund sameiginlega fyrir frammistöðu sína í Evrópuleik liðanna sem og stuðningsmenn ADO Den Haag fyrir að koma færandi hendi á leik á móti Feyenoord í hollensku deildinni.
Stuðningsmenn ADO Den Haag í Hollandi eru tilnefndir fyrir að koma með mikinn fjölda af leikfangadýrin og henda til stuðningsmanna Feyenoord sem sátu fyrir neðan þá í stúkunni en það voru börn frá Sophia barnaspítalanum í Rotterdam.
Þá eru stuðningsmenn Liverpool og Dortmund tilnefndir fyrir að syngja saman „You´ll never walk alone” fyrir leik liðsins í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar en leikurinn fór fram daginn fyrir 27 ára minningarafmæli vegna Hillsborough harmleiksins. Stuðningsmenn Dortmund sungu lagið á þýsku með stuðningsmönnum Liverpool sem virðingarvott við þá sem létust í slysinu hræðilega.
Ísland kom sér í sviðsljósið með flottri framkomu sinni í Frakklandi í sumar og nú getur íslenska þjóðin hjálpað Íslandi að eignast stuðningsmenn ársins hjá FIFA. Það er hægt að fara inn á heimasíðu FIFA og kjósa bestu stuðningsmennina.
Kosningin fer fram hér en 9. janúar kemur í ljós hver fær verðlaunin. Nú er bara að passa upp á að allir kjósi og að allir kjósi rétt.
