Nokkur breyting verður á skipan þingsæta í Suðvesturkjördæmi samvæmt könnuninni en hún byggir á svörum í könnunum fréttastofu undanfarnar tvær vikur sem og könnun sem gerð var á mánudag og þriðjudag.
Framsóknarflokkurinn tapar tveimur þingmönnum í kjördæminu með 6,7 prósenta fylgi og kæmist Eygló Harðardóttir ein á þing en Willum Þór Þórsson alþingismaður næði ekki kjöri.

Samfylkingin tapar öðrum sinna tveggja þingmanna í kjördæminu en hún mælist með 8 prósenta fylgi og því nær Árni Páll Árnason kjöri. Vinstri græn eru hins vegar að bæta við sig fylgi, fengju 11,6 prósent og einn mann kjörinn. En mjög mjótt er á munum annars manns Vinstri grænna, Ólafi Þór Gunnarssyni og Vilhjálmi Bjarnasyni fimmta manns Sjálfstæðisflokksins samkvæmt könnuninni.
Björt framtíð heldur sínum manni með 7 prósenta fylgi sem dugar fyrir þingsæti Óttars Proppé formanns flokksins. Píratar fengju aftur á móti þrjá menn kjörna með 20,1 prósent atkvæða í Suðvesturkjördæmi. Jón Þór Ólafsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Andri Þór Sturluson kæmust því öll á þing samkvæmt þessum niðurstöðum.
Viðreisn með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins í oddvitasæti, mælist með 8 prósent eins og Samfylkingin. Þar með kæmist Þorgerður Katrín á þing á nýjan leik.