Viðskipti innlent

Bindiskylda á túrista gæti komið næst

Sæunn Gísladóttir skrifar
Capacent veltir þeirri hugmynd upp að hverjum ferðamanni verði skylt að dvelja í að minnsta kosti einn mánuð á Íslandi til að takmarka innstreymi erlends gjaldeyris og ofris krónunnar.
Capacent veltir þeirri hugmynd upp að hverjum ferðamanni verði skylt að dvelja í að minnsta kosti einn mánuð á Íslandi til að takmarka innstreymi erlends gjaldeyris og ofris krónunnar. Vísir/Ernir
Velta má fyrir sér hvort Seðlabanki Íslands og fjármálastöðugleikaráð þurfi ekki að setja bindiskyldu á erlenda ferðamenn. Að hverjum ferðamanni verði skylt að dvelja hið minnsta í einn mánuð á Íslandi til að takmarka innstreymi erlends gjaldeyris og ofris krónunnar. Þessari hugmynd er varpað fram í Skuldabréfayfirliti Capacent.

Í greiningunni kemur fram að umhverfið á gjaldeyrismarkaði sé farið að minna um margt á þá tíma þegar erlendir fjárfestar streymdu til landsins til að kaupa íslenska vexti. Seðlabankinn hafi komið í veg fyrir að slíkt komi fyrir aftur og sett bindiskyldu á erlenda fjárfesta sem fjárfesta á innlendum vaxtamarkaði. Hins vegar stafi hröð og mikil gengisstyrking nú af innstreymi ferðamanna til landsins.

„Þetta er eins og vatn, ef þú stíflar vatn á einum stað finnur það sér farveg annars staðar. Þetta er ákveðin ádeila að velta þessu upp. Það er að sjálfsögðu ekki raunhæft að setja bindiskyldu á ferðamenn. Ég er að benda á hættuna af bindiskyldunni sem Seðlabankinn er með,“ segir Snorri Jakobsson, ráðgjafi hjá Capacent.

Snorri Jakobsson, ráðgjafi hjá Capacent. Mynd/Capacent
Fram kemur í greiningunni að fjárfesting í fasteignum og fasteignafélögum komi að stórum hluta í staðinn fyrir fjárfestingu í verðtryggðum skuldabréfum. Leiga fasteignafélaganna sé verðtryggð og skapi stöðugt sjóðstreymi líkt og vaxtagreiðslur. Gengi fasteignafélaganna hafi hækkað mikið síðan í sumar. Það ætti ekki að koma á óvart í ljósi bindiskyldu á vaxtamarkaði sem beini fjárfestum inn á fasteignamarkað.

„Það sem maður hefur heyrt er að erlendir fjárfestar séu að skoða það að fara inn á fasteignamarkaðinn eða til fasteignafélaganna. Því í eðli sínu er verðtryggður fasteignasamningur eins og verðtryggt skuldabréf, leigutekjur eru eins og vaxtatekjur. Leigusamningar eru í eðli sínu skuldabréf. Þannig að ef þú mátt ekki fjárfesta í skuldabréfum með vöxtum þá geturðu alveg eins farið á fasteignamarkaðinn og fjárfest þar. Stoppir þú flæðið á einum stað þá fer það á annan,“ segir Snorri.

„Hvar ætla þeir að stoppa í bindiskyldunni, er æskilegt að fjármagnið streymi inn á fasteignamarkað sem grefur undan verðbólgumarkmiði Seðlabankans ef verður mikil þensla þar?“ spyr Snorri. 

Fram kemur í greiningunni að gengi krónunnar styrkist stöðugt og hafi krónan styrkst um 2,9 prósent frá ágústlokum. Gengi pundsins og norsku krónunnar gagnvart krónu hafi ekki verið lægra síðan í mars 2008. Ef gengisstyrking krónunnar heldur áfram er þess ekki langt að bíða að gengi flestra gjaldmiðla gagnvart krónu verði svipað og fyrir bankahrun.

Jafnframt eru breytingar í stýrivöxtum taldar ólíklegar fram að áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×