Fótbolti

Hannes Þór og Jón Daði klárir í slaginn gegn Tyrklandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór Halldórsson snýr væntanlega aftur í markið gegn Tyrklandi.
Hannes Þór Halldórsson snýr væntanlega aftur í markið gegn Tyrklandi. vísir/anton
Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta, segist klár í slaginn fyrir leik liðsins á sunnudaginn gegn Tyrklandi í undankeppni HM 2018. Jón Daði Böðvarsson getur sömuleiðis verið með.

Hannes Þór gat ekki verið með í kvöld vegna meiðsla í læri þegar Ísland vann dramatískan 3-2 sigur á Finnlandi á Laugardalsvelli. Ögmundur Kristinsson stóð vaktina í markinu og fékk á sig tvö mörk í fyrri hálfleik.

„Ég var bara aðeins tæpur. Ég spila á sunnudaginn,“ sagði Hannes Þór ákveðinn þegar blaðamaður Vísis spjallaði við hann eftir leikinn í kvöld. Það var eðlilega létt yfir Hannesi út af ótrúlegum sigri íslenska liðsins en hann fékk að hvíla í kvöld til að vera 100 prósent klár á sunnudaginn.

Jón Daði Böðvarsson var einnig hvíldur vegna meiðsla sem hafa angrað hann undanfarnar vikur en Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, sagði á blaðamannafundi sínum eftir leik að framherjinn yrði klár í slaginn gegn Tyrklandi á sunnudaginn.

Björn Bergmann Sigurðarson fékk tækifæri í fjarveru Jóns Daða og Kolbeins Sigþórssonar og fékk lægstu einkunn hjá Vísi fyrir sína frammistöðu.


Tengdar fréttir

Lukas Hradecky: Fjárans skandall

Lukas Hradecky markvörður finnska landsliðsins í fótbolta var allt annað en ánægður með sigurmark Íslands á Laugardalsvelli í kvöld.

Ragnar: Tek markið 100% á mig

Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands, var himinlifandi með 3-2 sigurinn gegn Finnum í kvöld og segir að sigurmarkið hafi 100% verið hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×