Fótbolti

Fyrrum þjálfari Kolbeins: „Aldrei séð barn á hans aldri með sömu hæfileika“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Yahoo heimsótti Þránd Sigurðsson í Víkinga en hann þjálfaði barnastjörnuna Kolbein Sigþórsson.
Yahoo heimsótti Þránd Sigurðsson í Víkinga en hann þjálfaði barnastjörnuna Kolbein Sigþórsson. vísir/afp
Áhugi erlendra fjölmiðla á íslenska fótboltaundrinu minnkar ekkert við gott gengi strákanna okkar í Frakklandi. Fjallað er um grasrótina í íslenska boltanum í grein á vefsíðu Yahoo.

Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska liðsins, er sagður gott dæmi um uppeldisstarf hjá íslenskum fótboltaliðum þar sem vel menntaðir þjálfarar sinna sínum störfum við góðar aðstæður.

Þarna er kannski aðeins fært í stílinn með Kolbein sem var orðinn tólf ára gamall þegar fyrsta knattspyrnuhöllin reis á Íslandi en vissulega var vel séð um þennan hæfileikaríka strák sem var algjör barnastjarna á yngri árum í Víkingi.

„Hann var stór og fljótur. Hann sá alltaf markið og elskaði að skora. Ég hef aldrei séð barn á hans aldri með sömu hæfileika,“ segir Þrándur Sigurðsson, fyrrverandi leikmaður Víkings sem hefur þjálfað börn og unglinga hjá Reykjavíkurfélaginu í áratugi.

Bjarki Már Sverrisson, þjálfari hjá Aftureldingu, er einn þeirra þjálfara sem stuðla að því að skila góðum leikmönnum upp úr yngri flokka starfinu heima, að því segir í grein Yahoo.

„Íslenska knattspyrnusambandið hefur staðið sig frábærlega í að mennta þjálfara. Krakkar frá sex ára aldri og upp úr fá menntaða þjálfara,“ segir hann.

Fyrir mörgum árum kynntist Bjarki Már markverði einum í Mosfellsbænum sem heitir Hannes Þór Halldórsson. Breiðhyltingurinn hefur náð langt á síðasta áratug með mikinn vilja að vopni og er nú einn besti markvörður Evrópumótsins.

„Ég sá hvað hann gat á þeim tíma og hann hefur lagt mikið á sig síðan þá,“ segir Bjarki Már Sverrisson.

En getur þetta haldið áfram? Getur íslenska landsliðið haldið áfram að fella risa og standa sig á stórmótum? Það vill Þrándur Sigurðsson meina.

„U21 árs liðið okkar er virkilega sterkt þannig ég er fullviss um að þeir muni standa sig í framtíðinni. Strákarnir sem eru á leiðinni eru jafnsterkir og þeir sem eru í landsliðinu núna,“ segir Þrándur.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×