Gangstéttin var blaut þegar íslenskir blaðamenn mættu til Parísar í gærkvöldi eftir fjögurra tíma lestarferð frá Annecy þar sem sólin hefur skinið undanfarna daga. Minnti koman á heimkomu í Keflavík eftir sólarlandaferð þar sem rigning og rok taka á móti stuttbuxnaklæddum Íslendingum.

Reikna má með því að fæstir snúi heim útiteknari en þeir voru fyrir brottför. Veðurspáin fyrir helgina hljóðar nefnilega upp á hita á bilinu 14-19 stig, skýjað og einhverja úrkomu.
Fæstir ferðalanganna eru þó komnir til Frakklands vegna góða veðursins heldur til að upplifa einstaka stund á Stade de France annað kvöld í átta liða úrslitum á EM.
Þegar flautað verður til leiks klukkan 19 að staðartíma er reiknað með um 17 gráðu hita og skýjuðu veðri.
Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).