Innlent

Átta þúsund Íslendingar sjá lítið til sólar í París

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þótt sólin hafi skinið í Annecy þá er lítið af henni hér í París.
Þótt sólin hafi skinið í Annecy þá er lítið af henni hér í París. vísir/vilhelm
Það er vonandi að stuðningsmenn íslenska landsliðsins sem verða í París um helgina hafi tekið með sér jakka, peysur og jafnvel síðbuxur. Útlit er fyrir að sólin verði ekki gestur í borg ástarinnar um helgina en þess heldur verði skýjað og einhver úrkoma.

Gangstéttin var blaut þegar íslenskir blaðamenn mættu til Parísar í gærkvöldi eftir fjögurra tíma lestarferð frá Annecy þar sem sólin hefur skinið undanfarna daga. Minnti koman á heimkomu í Keflavík eftir sólarlandaferð þar sem rigning og rok taka á móti stuttbuxnaklæddum Íslendingum.



Stuðningsmennirnir Elvar Guðmundsson og Sveinbjörn Claessen minntu á mikilvægi sólarvarnar í Nice þar sem sólin skein. Hún er hvergi sjáanleg í París.
Von er á ríflega átta þúsund Íslendingum í París um helgina í tilefni af leik Íslands og Frakklands á morgun.

Reikna má með því að fæstir snúi heim útiteknari en þeir voru fyrir brottför. Veðurspáin fyrir helgina hljóðar nefnilega upp á hita á bilinu 14-19 stig, skýjað og einhverja úrkomu.

Fæstir ferðalanganna eru þó komnir til Frakklands vegna góða veðursins heldur til að upplifa einstaka stund á Stade de France annað kvöld í átta liða úrslitum á EM.

Þegar flautað verður til leiks klukkan 19 að staðartíma er reiknað með um 17 gráðu hita og skýjuðu veðri.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á FacebookTwitter og Snapchat (sport365). 



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×